Á göngu viđ Gardavatniđ - 23. maí til 2. júní 2018
GARDA GANGA 2018

Á GÖNGU VIÐ GARDAVATNIÐ

11 dagar / 10 nætur
Lágmarks fjöldi 10 manns, hámark 18  
Fararstjóri Brandur Jón Guðjónsson

Prentvæna útgáfu af þessum upplýsingum má fá hér

Fáir staðir taka bænum Riva del Garda og nágrenni hans fram hvað fegurð og fjölbreytni varðar, og möguleikar þessa stórbrotna landslags við norður enda Gardavatnsins til hvers konar útivistar eru nánast óþrjótandi.

GARDA GANGA 2018

Þetta verður létt útivistarferð, gönguferðir flesta dagana, einn daginn hjólað, aðra farið í skoðunarferðir til fjarlægari staða og einnig einfaldlega bara slakað á við vatnsbakkann!

Dvalið verður á Hótel Centrale, góðu þriggja stjörnu hóteli á besta stað í bænum, og þaðan farið í styttri og lengri ferðir, ýmist gangandi eða akandi, til þess að kynnast vel þessu fallega svæði. Farið með strætó, „skutlurum“, kláfi eða ferjum eftir því sem að þarf til þess að fylla upp í dagskrá ferðarinnar.

Allar gönguleiðirnar eru léttar og nánast alltaf verður komið snemma til baka úr ferðum dagsins og því verður góður tími til þess að slappa vel af – úti á torgi, niður við bryggju, eða á sólbaðsströndinni!

GARDA GANGA 2018

Í aðalhlutverki verður auðvitað fjölbreytt og fallegt landslagið, en Riva del Garda, Arco, Torbole, Nago, Limone sul Garda, Malcesine og Sirmione eru líka hver um sig fallegir bæir, um margt ólíkir, og um þá alla verður farið til að sjá kastala og kirkjur, garða og gróður, stræti og torg, báta og bryggjur.

Dagsferð til Verona verður skemmtileg viðbót við ferðina, auk skoðunarferðarinnar um miðbæ Milanó heimferðardaginn.  

Mjög mikið innifalið í verði ferðarinnar!

Lágmarks fjöldi 10 manns, hámark 18.

 

Ferðaáætlun:

Dagur 1 - miðvikudagur, 23. maí:  

Flogið til Munchen

Flogið með Icelandair til Munchen og við tekur uþb. 6  klukkutíma akstur beint í suður, um Innsbruck þvert yfir Austurríki, um Brennerskarð og niður Adige dalinn á Ítalíu, allt til þess að komið verður til hins fallega staðar Riva del Garda.

Dagur 2 - fimmtudagur, 24. maí:

Riva del Garda og Bastione

Farið verður frekar rólega af stað og gengið um gamla bæinn þveran og endilangan til þess að læra á helstu staði og stofnanir, farið á sólbaðsströndina og staðhættir kannaðir.

Inni í þessu er auðvitað að rata í lyfjaverslunina, matvörubúðina, til ávaxta- og vínsalanna (smá Grappa smakk fyrir þau sem það vilja er auðvitað partur af þessu líka), og síðast en ekki síst að vita hvar besta ísbúðin í bænum er og uppgötva hversu stutt er í hana frá hótelinu. Þennan dag verður líka farið upp í fjallið fyrir vestan bæinn, upp að virkinu Bastione, en þaðan sést vel yfir Riva.

Dagur 3 - föstudagur, 25. maí:  

Virkið á Monte Brione

Gengið austur með vatni og farið upp í skeifulagaða höfðann Monte Brione, en þaðan sést vel yfir bæina Riva fyrir vestan og Torbole fyrir austan. Á höfðanum eru gömul hernaðarmannvirki sem að kíkt verður á, en síðan gengið niður aftur í gegnum ólívuræktunarlundi, og eftir gott matarhlé á matsölustað við brekkurætur rölt heim á hótel aftur...

GARDA GANGA 2018

Dagur 4 - laugardagur, 26. maí:

Nago-Torbole og ótrúleg saga 

Nú verður tekinn strætó yfir til Torbole og miðbærinn skoðaður, en síðan gengið efir gönguslóða upp til bæjarins Nago. Í skarðinu þar uppi verður ótrúleg saga svæðisins rifjuð upp og dáðst af dásamlegu útsýninu. Ef tími vinnst til verður einnig gengið að gömlum kastalarústum yst á klettabrún. Frá Nago verður hópnum skutlað með bíl heim á hótel aftur. 

Dagur 5 - sunnudagur, 27. maí:

Hringleikahúsið í Verona

Nú verður farið með strætó til borgarinnar Verona þar sem að gengið verður um miðbæinn og ýmsar frægar byggingar skoðaðar. Þar má helst nefna Arena di Verona hringleikahúsið stóra sem að byggt var árið 30 e.Krist, en er mjög heillegt og vel við haldið; og svalir Júlíu, því að William Shakespeare lét sögu sína um Rómeo og Júlíu gerast í Verona. Auk þessa er ýmislegt annað skemmtilegt að skoða, en síðan verður farið til baka aftur með strætó upp til Riva.

Dagur 6 - mánudagur, 28. maí: 

Hamraveggirnir við Arco - hjóladagur

Og nú verða reiðhjól tekin á leigu og farið á þeim yfir til bæjarins Arco sem er í norð-austur frá Riva. Þar norðan við eru flottir hamraveggir sem að gaman er að skoða. Það verður hjólað neðanundir þeim á góðum stígum inn að „rómversku brúnni“ við þorpið Ceniga. Þaðan aftur til baka aðra leið til Arco. Eftir góða ís og/eða kaffistund hjólað aftur til Riva. 

GARDA GANGA 2018

Dagur 7 - þriðjudagur, 29. maí:

Malcesine – Monte Baldo – Limone / kláfur og ferjur 

Haldið af stað með strætó til Malcesine og þaðan farið með einum af flottari kláfum Evrópu upp á fjallið Monte Baldo. Þar verður gengið út á einn af bestu útsýnisstöðum við Gardavatnið til þess að sjá vel yfir mestallan norður enda þess, en auk þess er ýmislegt forvitnilegt að sjá á fjallinu sjálfu. Niður aftur með kláfnum og farið í göngu um gamla bæinn þar, kíkt inn í gamla kastalann áður en farið verður með ferju yfir til Limone. Sá fallegi bær skoðaður og kynnst sérkennilegum byggingum og rifjuð upp sérkenni bæjarbúanna. Síðan farið með ferju upp til Riva aftur.

Dagur 8 - miðvikudagur, 30. maí:

Strada del Ponale stígurinn

Eftir skutl með bíl upp í fjallið fyrir vestan Riva verður gengið niður eitt sérstakasta mannvirkið á svæðinu; gamla þjóðveginn Stada del Ponale, sem að nú er eingöngu nýttur sem göngu og hjólastígur fyrir útivistarfólk. Þarna gildir hið fornkveðna; „sjón er sögu ríkari“ því að það er magnað að fara þarna niður! Stoppað á góðum stað til þess að næra aðeins líkama og sál.

Dagur 9 - fimmtudagur, 31. maí:  

Sirmione og Gardavatnið langsum!

Strætóinn nýttur enn og aftur, og nú til þess að fara suður fyrir vatnið og út á litla tangann sem að skagar inn í vatnið. Þar er bærinn Sirmione og byrjað verður á því að kynnast árþúsunda sögu bæjarins. Síðan farið um borð í ferju sem að siglt verður með norður eftir Gardavatninu öllu, upp til Riva.

GARDA GANGA 2018

Dagur 10 - föstudagur, 1. júní:  

Frjáls dagur

Dagurinn nýttur síðasta bæjarröltið í Riva og/eða sólbað og slökun á vatnsbakkanum.  

Dagur 11 - laugardagur, 2. júní:

Fyrst Milanó og svo heim á leið...

Lagt verður af stað frá Riva strax eftir morgunmatinn. Fyrsti viðkomustaður verður í miðborg Milanó þar sem að skoðaðar verða nokkrar þekktar byggingar og andað að sér andrúmslofti nútímans og fyrri alda, og jafnvel gefast örfáar mínútur til þess að kíkja í einn og einn búðarglugga í þessari háborg tískunnar, - en síðan farið yfir til Malpensa flugvallar þaðan sem heimflugið verður kl 20:40, áætluð lending í Keflavík kl. 22:55

Þjónusta og verð:

Innifalið

í verði ferðar:

Flug

23.05.2018: Flug FI 532 Keflavík - Munchen, brottför 07:20 lending 13:05

02.06.2018: Flug FI 593 Milano (Malpensa) – Keflavík, brottför 20:40 lending 22:55  

Vinsaml. athugið að flugtímar geta breyst.

Gisting

 10 nætur á Hótel Centrale *** í Riva del Garda

Matur

Morgunverður:

Innifalinn

Hádegisverður:

Ekki innifalið

Kvöldverður:

Innifalinn – 7 kvöldverðir á hótel Centrale

Ferðir og flutningar

Allur akstur og aðrir flutningar sem þarf til að fylla inn í áætlun ferðar.

(Rútuferðir að og frá flugvöllum, almenningssamgöngur og skutl að upphafsstöðum gönguleiða / ferjusiglingar á Gardavatninu / kláfur á Monte Baldo)

Fararstjórn

Brandur Jón Guðjónsson

Fundur með fararstjóra fyrir ferðina.

Ekki innifalið:

Drykkir með kvöldverðum

Aðgangseyrir á söfn o.þ.h.

Hjólaleiga í einn dag (uþb. € 20,-)

Annað það sem ekki er talið upp í „innifalið”

Verð:

Verð á mann í tveggja manna herbergi

224.900,- staðgreitt

Verð á mann í eins manns herbergi

249.900,- staðgreitt

Greiðslur og gjalddagar:

Staðfestingargjald:

Staðfestingargjald ISK 75.000 þarf að greiða innan 7 daga frá pöntun. Athugið að staðfestingargjald fæst ekki endurgreitt ef til afbókunar af hálfu viðskiptavinar kemur.

Lokagreiðsla:

Til að staðgreiðsluverð gildi þarf að greiða ferð að fullu í síðasta lagi 8 vikum fyrir brottför, annars hækkar verð um 5%.

Ábendingar:

Lágmarks þátttaka er 10 manns. Ferðaskrifstofan Íslandsvinir áskilur sér rétt til að hætta við ferð sex vikum fyrir brottför ef þátttaka er ekki næg og mun þá endurgreiða að fullu. 

Ferðaskrifstofan Íslandsvinir og fararstjórar hennar áskilja sér allan rétt til að breyta áætlunum ferða ef veður, umferð og/eða ástand vega, eða aðrar ófyrirsjáanlegar aðstæður gefa tilefni til.

Forfallatrygging er ekki í boði í sérferðum ferðaskrifstofunnar. Í mörgum tilfellum er forfallatrygging innifalin í skilmálum greiðslukorta og/eða heimilis- og fjölskyldutrygginga fólks og er viðskiptavinum bent á að hafa samband við banka sinn eða tryggingarfélag til að kanna stöðu mála. Verð ferðar er háð almennum gengisbreytingum, en breytist ekki eftir að hún er að fullu greidd.

Ferðaskrifstofan Íslandsvinir er aðili að SAF (Samtök ferðaþjónustunnar, sjá www.saf.is) og því gilda almennir skilmálar samtakanna um allar ferðir ferðaskrifstofunnar, auk þess sem viðkomandi flugfélag getur verið með sína skilmála til viðbótar.

Frekari upplýsingar og skráning í síma 510 9500 eða sendið fyrirspurn á info@explorer.is

Farþegar  í ferðum Íslandsvina fá sérkjör í útivistarvöruverslunum  „Fjallakofans“ í Hafnarfirði og Reykjavík.

Fjallakofinn logo

| More