Töfrar Gardavatnsins hjólaferđ 27. maí - 5. júní 2017
garda hjól   TÖFRAR GARDAVATNSINS - HJÓLAFERР
10 dagar / 9 nætur
Lágmarks fjöldi 10 manns, hámark 15
Fararstjóri Brandur Jón Guðjónsson

Prentvæna og nánari útgáfu af upplýsingum um ferðina má sjá hér 

Um stórbrotið landslagið við norður enda Gardavatnsins er frábært að ferðast, hvort sem er gangandi eða á reiðhjólum. Dvalið verður í Riva del Garda, sem er stærsti bærinn við norður enda vatnsins. Það er ægifagurt í Riva, snarbrött fjöll rísa upp úr bláu djúpu vatninu og bærinn kúrir í skjóli þeirra á flatlendinu norðan vatnsins.  Þessi bær er ekki eins „túrista“ troðinn eins og sumir aðrir við vatnið og því þægilegur að búa í. Þar eru fallegar byggingar, notalegt og afslappað andrúmsloft, og gaman að rölta um bæinn síðdegis og á kvöldin eftir vel heppnaðan ferðadag.

Þetta er ferð fyrir venjulegt fólk til að njóta og upplifa! Dagleiðirnar eru fjölbreyttar, og mis erfiðar, og þátttakendur þurfa ekki að vera í neinu ofurformi til þess að njóta þess sem gert er, en skilyrði er að þeir séu vanir hjólreiðum, – eina takmark hvers dags er að klára dagleiðina og njóta þess sem fyrir augu ber – og vera komin inn á hótel fyrir kvöldmatinn!

Alltaf er verið á sama hótelinu og þar verða snæddir morgun- og kvöldverðir. Hótel Centrale er einfalt og þægilegt þriggja stjörnu hótel, og er, eins og nafnið bendir til, frábærlega staðsett í hjarta gamla bæjarins í Riva og stendur við höfnina og aðaltorg bæjarins. Útfrá hótelinu er síðan lagt af stað að morgni gangandi, hjólandi eða akandi í lengri eða styttri dagsferðir.

Miðað er við að þátttakendur leigi sér góð fjallahjól á staðnum. Lang mestan hluta ferðarinnar er verið á bundnu slitlagi á umferðarlitlum götum, vegum og hjólastígum, og að litlu leiti á malarstígum, mis grófum...

Lágmarks fjöldi 10 manns, hámark 15.

Ferðaáætlun:

Dagur 1 - laugardagur, 27. maí:

Flogið til Malpensa (Milano)

Flogið með Icelandair frá Keflavík til Malpensa (Milano) kl 16:50 - áætluð lending 22:40 og við tekur u.þ.b. þriggja tíma akstur til Riva del Garda.

Dagur 2 - sunnudagur , 28. maí:

Riva del Garda

Það verður farið frekar rólega af stað til að venjast aðstæðum og byrjað á göngutúr upp í Monte Brione, sem er lágur höfði rétt austan við bæinn. Síðan verða hjólin sótt og farið í stutta skoðunarferð á þeim um nágrennið.

Ganga – hækkun/lækkun u.þ.b. 250m 3-4 klst - þyngd 2 af 5

Hjól – hækkun/lækkun u.þ.b. 25m - U.þ.b. 20 km, allt á hjólastígum og umferðarlitlum götum – Þyngd 1 af 5  

Dagur 3 - mánudagur, 29. maí:

Sarca dalurinn

Byrjað á að hjóla í gegnum bæinn Arco, um fjölbreyttan og fallegan Sarca dalinn og með samnefndri á, inn að Toblino vatni. Miðdegishressing tekin í kastalanum sem stendur við vatnið, áður en farið verður aftur til baka, að hluta til aðra leið, núna framhjá Cavedine vatni.

Hækkun/lækkun u.þ.b. 300m – U.þ.b. 65 km. Umferðarlitlir sveitavegir/góðir hjólastígar, þar af malarstígar u.þ.b. 2 km – Þyngd 2 af 5

Dagur 4 - þriðjudagur, 30. maí:

Lago di Ledro

Farið í bíl með hjólin upp að Lago di Ledro (Ledro vatni) sem er ein af perlum svæðisins.  Hjólað umhverfis vatnið og síðan niður í áttina að Riva. Tekinn smá útúrdúr til að koma við á fallegum útsýnisstað og upp í þorpið Pregasina áður en hjólað verður um hið magnaða mannvirki „Strada del Ponale“ niður til Riva.

Hækkun u.þ.b. 200m/lækkun u.þ.b. 750m – U.þ.b. 35 km, skiptist til helminga í umferðarlitla sveitavegi og hjólastíga, þar af malarst. u.þ.b. 6 km. – Þyngd 3 af 5

Dagur 5 - miðvikudagur, 31. maí:

St. Barbara kapellan

Hjólin fá hvíld þennan daginn, en farið í staðinn í stuttan en snarpan göngutúr upp í kapellu heilagrar Barböru.

Nokkuð erfitt – Hækkun/lækkun u.þ.b. 570m – U.þ.b. 3 ½ klst. 

Dagur 6 - fimmtudagur, 1. júní:

Malcesine – Monte Baldo

Farið í bíl til Malcesine og hjólin tekin með í kláfi upp á fjallið Monte Baldo. Þaðan er víðsýnt til allra átta, m.a. yfir nánast allt Garda vatnið. Svo er hjólað „norður og niður” eftir fjallinu á ágætum vegum um fallegt landslag og blómlegar sveitir, heim á hótel.

Hækkun u.þ.b. 200m/lækkun u.þ.b. 1900m – U.þ.b. 50 km, þar af malarvegur 4 km - umferðarléttir sveitavegir u.þ.b. 45 km / hjólastígar u.þ.b. 15 km – Þyngd 3 af 5

Dagur 7 - föstudagur, 2. júní:

Tremosine og Limone

Nú verður hópnum skutlað dálítinn spotta suður með vatni að vestanverðu en svo stigið á bak hjólunum til að fara um stórbrotið gljúfrið í Val Brasa og upp í þorpið Pieve. Hjólaður góður hringur um Tremosine svæðið, og niður í hinn fallega bæ Limone sul Garda. Að lokum verðu svo siglt með ferju heim til Riva aftur.

Hækkun u.þ.b. 400m/lækkun u.þ.b. 600m – U.þ.b. 25 km. allt bundið slitlag, þar af umferðarléttir sveitavegir 23 km. – Þyngd 3 af 5

Dagur 8 - laugardagur, 3. júní:

Comano og nágrenni

Þennan dag verður byrjað á bílferð en síðan hjóluð fjölbreytt og falleg leið um Sarca gljúfrið, farið um Comano Terme og komið að Lago di Tenno vatninu áður en farið verður niður til Riva aftur.

Hækkun u.þ.b. 600m/lækkun u.þ.b. 800 – U.þ.b. 40km. á hjólastígum og umferðarlitlum sveitavegum, þar af malarstígar u.þ.b. 10km – Þyngd 3 af 5

Dagur 9 - sunnudagur, 4. júní:

Frjáls dagur

Dagurinn nýttur í bæjarrölt eða sólbað eða borgarferð - eða bara í algjöra slökun eftir góða hreyfingu undafarinna daga...

Dagur 10 - mánudagur, 5. júní:

Fyrst Milanó og svo heim á leið...

Lagt verður af stað frá Riva fyrir hádegið og fyrsti viðkomustaður verður í miðborg Milanó þar sem að skoðaðar verða nokkrar þekktar byggingar og andað að sér andrúmslofti nútímans í bland við fyrri alda um leið og örfáar mínútur gefast til að kíkja í einn og einn búðarglugga, - en síðan farið yfir til Malpensa flugvallar þaðan sem heimflugið verður kl 23:40, áætluð lending í Keflavík kl. 01:55

Þjónusta & verð

Innifalið

í verði ferðar:

Flug

27.05.2017: Flug FI 592 Keflavík - Malpensa (Milano), brottför 16:50 lending 22:40

05.06.2017: Flug FI 593 Malpensa – Keflavík, brottför 23:40 lending 01:55  

Vinsaml. athugið að flugtímar geta breyst.

Gisting

 9 nætur á Hótel Centrale*** í Riva del Garda.

Matur

Morgunverðir

Innifalið – 9 morgunverðir

Hádegisverðir

Ekki innifalið

Kvöldverðir

Innifalið – 6 kvöldverðir

Ferðir / flutningar

Allur akstur og aðrir flutningar (kláfur, ferja o.þ.h.) sem þarf til að fylla inn í áætlun ferðar.

 

Fararstjórn

Brandur Jón Guðjónsson

Fundur með fararstjóra fyrir ferðina.

Ekki innifalið:

Drykkir með kvöldmat

Aðgangseyrir á söfn o.þ.h.

Annað það sem ekki er talið upp í „innifalið”

Reiðhjólaleiga (u.þ.b. € 100,-)

Verð:

Verð á mann í tveggja manna herbergi

269.900,- staðgreitt

Verð á mann í eins manns herbergi

299.900,- staðgreitt

Greiðslur og gjalddagar:

Staðfestingargjald:

Staðfestingargjald ISK 75.000 þarf að greiða innan 7 daga frá pöntun. Athugið að staðfestingargjald fæst ekki endurgreitt ef til afbókunar af hálfu viðskiptavinar kemur.

Lokagreiðsla:

Til að staðgreiðsluverð gildi þarf að greiða ferð að fullu í síðasta lagi 6 vikum fyrir brottför, annars hækkar verð um 5%.

Ábendingar:

Lágmarks þátttaka er 10 manns. Ferðaskrifstofan Íslandsvinir áskilur sér rétt til að hætta við ferð sex vikum fyrir brottför ef þátttaka er ekki næg og mun þá endurgreiða að fullu.

Ferðaskrifstofan Íslandsvinir og fararstjórar hennar áskilja sér allan rétt til að breyta áætlunum ferða ef veður, umferð og/eða ástand vega, eða aðrar ófyrirsjáanlegar aðstæður gefa tilefni til.

Forfallatrygging er ekki í boði í sérferðum ferðaskrifstofunnar. Í mörgum tilfellum er forfallatrygging innifalin í skilmálum greiðslukorta og/eða heimilis- og fjölskyldutrygginga fólks og er viðskiptavinum bent á að hafa samband við banka sinn eða tryggingarfélag til að kanna stöðu mála. Verð ferðar er háð almennum gengisbreytingum, en breytist ekki eftir að hún er að fullu greidd.

Ferðaskrifstofan Íslandsvinir er aðili að SAF (Samtök ferðaþjónustunnar, sjá www.saf.is) og því gilda almennir skilmálar samtakanna um allar ferðir ferðaskrifstofunnar, auk þess sem viðkomandi flugfélag getur verið með sína skilmála til viðbótar.

Verð miðast við gengi € (Evru) og flugvallaskatta eins og það var um miðjan júlí 2016 og getur tekið breytingum...

Frekari upplýsingar og skráning í síma 510 9500 eða sendið fyrirspurn á info@explorer.is

Farþegar í ferðum Íslandsvina fá sérkjör í útivistarvöruverslunum  „Fjallakofans“ í Hafnarfirði og Reykjavík. 

| More